Íslam Fróðleikur Ahmadiyya-múslimar

Tuesday23 July 2019

Ahmadiyya-múslimar

Ahmadiyya er hreyfing innan islam sem varð til við lok 19. aldar. Upphafsmaður hennar var Mirza Ghulam Ahmad (1835-1908) en hann var fæddur í bænum Qadian í Punjab-héraði á Indlandi. Hreyfinguna stofnaði hann formlega 23. mars árið1889.

Mirza Ghulam Ahmad hlaut opinberun um að honum bæri að siðbæta islam og hann hélt því fram að hann væri Mujaddid, sendiboði Guðs til að endurnýja trúna. Síðar talaði hann um sig sem Mahdi eða Messías sem hin ýmsu trúarbrögð höfðu boðað að kæmi fram á hinum síðustu tímum. Það leiddi til þess að hreyfingin varð strax umdeild og var henni almennt hafnað meðal múslima. Var það meðal annars gert á grundvelli þess að Múhameð væri síðastur allra spámanna sem hefði komið með hina endanlegu opinberun. Mirza Ghulam Ahmad sagðist hins vegar hafa hlotið guðlega köllun til að endurnýja og siðbæta samfélag múslima. Hann hefði í rauninni ekkert nýtt fram að færa og hann vísaði einungis til Múhameðs spámanns og Kóransins. Islam væri hin sanna trú en vegna þess að múslimar hefðu vikið frá henni í ýmsum efnum í tímans rás væri þörf á endurnýjun og siðbót.

Nafnið á hreyfingunni, Samfélag Ahmadiyya-múslima (Ahmadiyya Muslim Jama´at), tók Mirza Ghulam Ahmad upp árið 1900. Það er þó ekki sótt í nafn hans sjálfs, heldur kemur það úr 61. súru Kóransins þar sem talað er um að sendiboði muni koma og verða nefndur Ahmad. Eftir daga Mirza Ghulam Ahmad hafa svo nefndir kalífar (Khalifatul) verið leiðtogar Ahmadiyya samfélagsins. Fyrsti kalífinn var Hadhrat Maulana Noor-ud-deen. Eftir hans dag klofnaði hreyfingin í tvennt og til varð Lahore Ahmadiyya-hreyfingin, m.a. vegna ágreinings um stöðu Mirza Ghulam Ahmad, en sú hreyfing hafnar því að það komi spámaður á eftir Múhameð. Þá viðurkennir hún ekki kalífaembættið og er stjórnað af Anjuman, ráði valinna einstaklinga. Upprunalega Ahmadiyya-samfélagið hélt aftur á móti fast við kalífaembættið. Núverandi kalífi, Hadhrat Mirza Masroor Ahmad, tók við árið 2003 og er sá fimmti í röðinni.

Ahmadiyya-múslimar fylgja öllum kjarnaatriðum islams. Þeir trúa á einn Guð og að Múhameð hafi verið spámaður Guðs. Þeir líta á Kóranin sem orð Guðs sem hann hafi opinberað fyrir Múhameð. Auk þess viðurkenna þeir, líkt og Súnnítar, gildi Hadítanna og Súnnunnar, sem eru arfsagnir um spámanninn og ummæli höfð eftir honum og leiðsögn um hvernig beri að tileinka sér orð hans og gjörðir. Þeir fylgja frumskyldunum fimm og snúa sér í átt til Mekka þegar þeir biðjast fyrir, fimm sinnum á sólarhring.

Þrátt fyrir þetta greina þeir sig frá öðrum stefnum innan islams í nokkrum atriðum. Meginmunurinn felst í þeirri skoðun að Mirza Ghulam Ahmad sé Messías, sem kristnir menn vænta að komi aftur, eða Mahdi sem múslimar vænta. Þá eru hugmyndir þeirra um Jesú og örlög hans frábrugðnar því sem almennt gerist meðal múslima. Ahmadiyya-muslimar telja að Jesú hafi verið bjargað af krossinum og að hann hafi farið til Indlands að leita hinna týndu ættkvísla Ísraels og dáið í Kashmír, meðan aðrir múslimar telja að Jesús hafi ekki dáið á krossinum heldur verið hafinn til himins. Ahmadiyya-múlimar telja að Jesús birtist ekki sjálfur við endurkomu sína, heldur verið hún táknræn og gerist með þeim hætti að það komi fram sendiboði í hans nafni. Í þessu sambandi vísa þeir til hliðstæðunnar við Elía spámann sem gyðingar trúa að komi aftur á undan Messíasi og Jóhannesar skírara sem Jesús talaði um að væri sá Elía sem þeir væntu.

Skilningur Ahmadiyya-múslima á Jihad er jafnframt frábrugðinn því sem almennt gerist meðal múslima. Þeir líta svo á að Jihad sé fyrst og fremst innri barátta hins trúaða gegn eigin löstum og feli jafnframt í sér friðsamlega boðun trúarinnar. Þeir leggja áherslu á að kærleikurinn sé eina vopnið sem beita má gegn fjandskap og illsku. Aðrir múslimar greina á milli „hins meira Jihad", sem snýst um innri baráttu hinna trúuðu, og „hins minna Jihad", sem felur í sér ytri baráttu, jafnvel vopnaða. Margir múslimar eru þó þeirrar skoðunar að vopuð barátta sé einugis neyðarúrræði í sjálfsvörn.

Ahmadiyya-múlimar hafa stundað skipulegt trúboð víða um heim og hófst trúboð þeirra á Vesturlöndum á 3. áratug síðustu aldar. Þeir hafa oft mætt ofsóknum af hálfu annarra múslima og hafa því flúið heimalönd sín og sest í Evrópulöndum. Þeir starfa nú í tæplega 200 löndum og tugir miljóna eru taldir tilheyra hreyfingunni. Þeir eru ötulir við að þýða Kóranin á önnur tungumál og duglegir að byggja moskur. Árlega halda þeir svo kallaða Jalsa Salna hátíð í þeim löndum þar sem þeir hafa fest rætur.

Hér á landi hófst trúboð Ahmadiyya-múlima undir lok 9. áratugarins. Þeir eru þó ekki enn sem komið er formlega skráð trúfélag hér á landi. Þegar eru skráð tvö trúfélög múslima á Íslandi, annars vegar Félag múslima á Íslandi sem var viðurkennt til skráningar árið 1997 og hins vegar Menningarsetur múslima á Íslandi sem var skráð árið 2009.

GJG 2010